top of page

X-Á er árangur í þína þágu

Frjálst afl hefur setið í meirihluta í bæjarstjórn á kjörtimabílinu sem er að líða með tvo bæjarfulltrúa. „Hvað er raunhæft loforð“ var fyrirsögn greinar sem ég skrifaði árið 2014. Þar hafði ég í huga að eina rauhæfa loforð okkar, miðað við stöðu sveitarfélagsins, væri að lækka skuldir sveitarfélagsins og ráða faglegan bæjarstjóra. Fjórum árum síðar getum við sagt að við höfum staðið við slík loforð og rúmlega það.

 

Skuldir sveitarfélagsins hafa lækkað töluvert með ábyrgri stjórn og hagræðingu í því. Þegar við tökum við búinu var skuldaviðmið þess 249% í samstæðu (A+B hluta) en í dag er hlutfallið 186%. Þetta leit ekki vel út til að byrja með og Reykjanesbær slapp naumlega frá því að eftirlitsnefnd sveitarfélaga tæki við rekstri. Það er mikilvægt að vita að skuldaviðmið sveitarfélaga, sem má að hámarki verða 150%, er bundið sveitarstjórnarlögum og því ber öllum sveitarfélögum að fara eftir þeim. Þetta ákvæði er til staðar svo að þau sveitarfélög, sem erfitt eiga með rekstur, geti rekið þá þjónustu sem þarf til. Faglegur bæjarstjóri var ráðinn til að reka sveitarfélagið. Honum hefur farist það vel úr hendi og við vonumst til þess að hann geti haldið þeirri vinnu áfram.

 

Á þessu kjörtímabili gerðist margt annað jákvætt. Fyrsta verkefni mitt sem fulltrúi velferðanefndar var að koma á fót nýju húsnæði fyrir Hæfingarstöðina. Eftir nokkurra mánaða skemmtilega vinnu með áhugasömum starfsmönnum sveitarfélagsins var búið að ákveða að finna húsnæði fyrir starfsemina. Afráðið var að fara upp á Ásbrú með þjónustuna í stærra og betra húsnæði. Bæjarfélagið eignaðist síðar húsnæði, það var var gert upp og aðlagað að verkefninu. Fjölmenningarfulltrúi var svo ráðinn til starfa til að sinna ráðgjöf í málefnum fólks af erlendu bergi brotnu. Atvinnufulltrúi var einnig ráðinn til starfa til að auka og laða að ný fyrirtæki og auka atvinnutækifæri hér á svæðinu.

 

Velferðarsvið fór einnig í nauðsynlegar aðgerðir til að virkja þá einstaklinga sem þáðu fjárhagsaðstoð. Það var gert með auknum stuðningi og fjölbreyttum virkniúrræðum. Þökk sé góðri vinnu starfsmanna sviðsins, en einnig atvinnutækifærum sem fjölgaði á þessu svæði, þá náðist mjög góður árangur. Einstaklingum á fjárhagsaðstoð fækkaði úr 547 árið 2014, þegar núverandi meirihluti tók við, í 201 einstaklinga árið 2017. Hvatagreiðslur, sem eru niðurgreiðslur á íþrótta-og tómstundaiðkun barna, hafa jafnframt hækkað á þessu kjörtimabili úr 7.000 kr. í 28.000 kr. Einnig var aldurstakmarkið til að nýta slíkar greiðslur hækkað úr 16 í 18 ára aldur. Við samþykktum að greiða niður skólagögn fyrir öll börn í grunnskóla sem var mikilvægt skref í skólakerfinu. Að lokum var systkinaafsláttur innleiddur á milli skólastiga sem hjálpar barnafjölskyldum að nýta þjónustuna betur og lækkar útgjöld heimilanna.

 

Við getum lengi haldið áfram að telja upp þann árangur sem við höfum náð á þessu kjörtímabili. Mikilvægast er þó að okkur hefur tekist að halda í alla þjónustu sveitarfélagsins, þrátt fyrir erfið fjárhagsleg úrlausnarefni þegar sveitarfélagið var á barmi gjaldþrots. Það er staðreynd sem aðrir flokkar í framboði vilja jafnvel ekki viðurkenna. Við rekum ennþá alla þjónustu í sveitafélaginu, hvort sem hún er lögbundin eða ekki. Þess vegna er svo mikilvægt að standa vörð um þá þjónustu og starfsemi sem okkur er mikilvæg hér í Reykjanesbæ. Með ábyrgri stjórn, bæði í rekstri og stjórnun núverandi meirihlutans og ekki sist aðkomu Frjálst afls, þá héldum við þessari þjónustu gangandi.

 

Kæru kjósendur! Ykkar er valið þann 26. maí næstkomandi; ábyrga stjórnun áfram með Frjálsu afli eða óraunhæf loforð þeirra flokka sem hafa ekki tekið þátt í að stýra bæjarfélaginu og sigla því upp úr djúpum öldudal.

Jasmina Crnac, 2. sætið á lista Frjáls afls

  • Twitter App Icon
  • Instagram App Icon

Frjálst afl  - Brekkustígur 41 - 260 Reykjanesbær. 

                           frjalstafl@frjalstafl.is                                                                                                                                                                                                                    

bottom of page