top of page

Stefnuskrá 2018

Frjálst afl stendur fyrir frjálslynd og jafnréttismiðuð gildi, og leggur áherslu á ábyrgð í rekstri og þjónustu við íbúa bæjarins. Mikilvægt er að horfa til framtíðar og hafa hag og velferð bæjarbúa að leiðarljósi. Betri rekstur tryggir betra mannlíf og gerir sóknarfæri framtíðar að framkvæmdum. Árangur af slíku er ávallt í þágu íbúa bæjarins.

Stjórnsýsla, rekstur og fjármál bæjarins

Eftir síðustu kosningar var myndaður meirihluti með þátttöku Frjáls afls. Í því samstarfi lögðum við áherslu á niðurgreiðslu skulda, í samræmi við stefnuskrá framboðsins og skuldaviðmið sveitarstjórnarlaga. Frjálst afl mun halda áfram sókninni með það að markmiði að ná lögbundnu skuldaviðmiði sveitarfélaga fyrir lok árs 2022. Lækkun skulda bæjarins gefur svigrúm til bættrar þjónustu til framtíðar. Við viljum að áfram verði faglegur bæjarstjóri við stjórnvölinn sem hefur hagsmuni allra bæjarbúa að leiðarljósi.

Atvinnulíf

Atvinnulíf á Suðurnesjum hefur verið í stöðugum vexti síðastliðin ár og atvinnuleysi er orðið með því lægsta sem gerist á landinu. Atvinnutækifæri hafa aukist, en engu að síður stöndum við frammi fyrir einhæfu atvinnulífi. Þess vegna þarf að stuðla að fjölbreyttari vel launuðum störfum, í samráði við fyrirtæki og ríkisstofnanir á svæðinu. Efla má nýsköpun á svæðinu með því að styðja nýsköpunarverkefni, ásamt því að nýta þau tækifæri sem til staðar eru. Við munum jafnframt leggja okkur fram við að skapa þeim fyrirtækjum sem þegar eru á svæðinu gott og hvetjandi starfsumhverfi. Við viljum styðja við tækifæri inn- og útflutningsfyrirtækja, svo sem útgerð og fiskvinnslu, til aukinnar nýtingar Helguvíkurhafnar. Nálægð hafnarinnar við alþjóðaflugvöll skapar tilvalinn grundvöll til þess.

Málefni barnafjölskyldna og unga fólksins

Fjölmargir foreldrar geta hvorki leitað til dagmæðra né fengið leikskólavist fyrir börnin sín að loknu fæðingarorlofi, og fram að tveggja ára aldri. Leita skal úrræða til að mæta þörfum þeirra. Okkur er annt um hag barnafjölskyldna bæjarins og við munum áfram styðja við þann hóp. Halda skal áfram systkinaafslætti, hækka hvatagreiðslur og gera þær skilvirkari. Auka þarf fjölbreytni í tómstundastarfi barna með áherslu á skapandi hugsun. Við viljum halda áfram að efla tengsl vinnuskóla Reykjanesbæjar og atvinnulífs. Einnig viljum við efla þátttöku ungmenna í vinnuskólanum með því að gera börnum, sem lokið hafa 8. bekk grunnskólastigs, kleift að taka þátt.  Við teljum að móta þurfi skýra framtíðarsýn í forvarnarmálum til að efla enn frekar það góða forvarnarstarf sem unnið hefur verið í málefnum barna og ungmenna. Jafnframt viljum við gera úttekt á viðbragðsáætlun grunnskóla og íþróttafélaga Reykjanesbæjar varðandi einelti og önnur alvarleg tilvik , og styðja við þau ef þörf krefur.

Mennta- og menningarmál

Menntun er forsenda framþróunar og undirstaða velferðar í hverju samfélagi. Frjálst afl gerir sér grein fyrir mikilvægi menntunar og þeirri ábyrgð sem fylgir málaflokki menntamála. Við viljum leggja áherslu á að í skólakerfinu sé fagfólk í stöðum og starfi. Einnig viljum við halda áfram að styðja það starfsfólk sem vill bæta við sig menntun. Skjóta þarf sterkari stoðum undir Fjölbrautaskóla Suðurnesja, þar sem sú krafa til ríkisins er gerð að fjárframlög verði á pari við aðra framhaldsskóla á landinu. Að lokum teljum við að efla þurfi sérfræðiþjónustu í skólakerfinu, þar á meðal að auka sálfræðiþjónustu og þjónustu talmeinafræðinga. Með því tekst okkur að létta álagi af öðru starfsfólki skólastigs og koma betur til móts við misjafnar þarfir nemenda.​ 

Menning er ekki einungis mikilvæg verðmætasköpun samfélagsins, heldur hefur hún líka mikilvægt mannræktargildi í sjálfri sér. Reykjanesbær getur státað sig af frjórri menningarhugsun og öflugri menningu bæjarins. Stofnanir menningar gegna þar afar mikilvægu hlutverki. Við viljum lengja þjónustutíma safna, leggja áherslu á að aðgengi að þeim verði betra og halda áfram uppbyggingu á Duus-húsum og nágrenni. Að auki teljum við mikilvægt að koma á fót menningarmiðstöð sem þjóni fjölbreyttu hlutverki og sinni fjölmenningu samfélagsins.​

Heilbrigðis- og velferðarmál

Öflug heilsugæsla er grunnstoð heilbrigðiskerfisins. Leggja þarf áherslu á að styrkja hana á kjörtímabilinu. Framlög ríkisins til heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum hafa um langa hríð verið þau lægstu á landinu. Frjálst afl leggur áherslu á að breyta þessu. Það verður einungis gert með samstilltu átaki sveitarfélaga á Suðurnesjum og íbúum bæjarins, sem gera nú þá sjálfsögðu kröfu að standa jafnfætis öðrum sveitarfélögum á landinu um fjárframlög frá ríkinu. Skapa þarf réttlátt, heilbrigt og skemmtilegt bæjarfélag fyrir alla íbúa. Til þess þarf m.a. að auka þjónustu við fólk af erlendu bergi brotnu og vinna að aukinni velferð bæjarbúa, ekki síst þeirra sem eldri eru. Að því sögðu þarf að lækka fasteignagjöld 70 ára og eldri með því hækka tekjuþröskuld þeirra. Jafnframt viljum við auka heimaþjónustu við aldraða, halda áfram heilsueflingu eldri borgara og hefja á ný uppbyggingu Nesvalla þar sem við stefnum að byggingu 60 hjúkrunarrýma.

 

Jafnréttismál

Jafnrétti er forsenda sanngirni og réttlætis í samfélaginu. Reykjanesbær á að vera í forystu og öðrum til fyrirmyndar í jafnréttismálum. Tryggja þarf öruggt og gott aðgengi hreyfihamlaðra að öllum opinberum svæðum og byggingum sem tengjast bæjarfélaginu. Til þess að svo megi verða þarf meðal annars að tryggja góða aðkomu, sjá til þess að merkingar séu leiðbeinandi og greinilegar og tryggja greiða leið, utan húss sem innan. Við viljum einnig að sem vinnustaður verði bærinn í fremstu röð í hvers kyns baráttu gegn mismunun, einelti, áreitni eða ofbeldi sem kann að eiga sér stað. Núverandi starfsmannastefna Reykjanesbæjar er af hinu góða, en til viðbótar við þá stefnu teljum við brýnt að innleiða skýrar verklagsreglur um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni, eða ofbeldi af slíku tagi.

Umhverfis- og skipulagsmál

Reykjanesbær á að vera spennandi kostur fyrir kynslóðir framtíðar. Í því skyni þarf hagsæld og velferð bæjarbúa að vera sjálfbær. Það á ekki eingöngu við um fjárhag samfélagsins, heldur einnig um umhverfi okkar. Við viljum vinna að uppsetningu hleðslustöðva fyrir rafbíla í bæjarfélaginu, tryggja áframhaldandi virka hreinsun lóða og umhverfis, og leggja aukna áherslu á endurnýtingu og endurvinnslu. Þá verður að móta stefnu með bæjarbúum og fyrirtækjum um áætlun gegn loftslagsmengun, gæta að umhverfisáhrifum við úthlutun starfsleyfa til fyrirtækja og stuðla að aukinni umhverfisvitund bæjarbúa og gesta bæjarfélagsins. Til að mynda má stuðla að aukinni skógrækt í samráði við fyrirtæki og bæjarbúa á svæðinu. J

 

Jafnframt þarf að huga að skipulagsmálum á komandi kjörtímabili. Mikil fjölgun íbúa á undanförnum árum kallar á endurskipulagningu almenningssamgangna. Einnig þarf að gæta sérstaklega að flæði umferðar á álagstímum. Við viljum efla almenningssamgöngur með tíðari ferðum á álagstímum og sérferðum sem taka mið af tómstunda- og íþróttaiðkun barna og ungmenna. Ljúka þarf skipulagsvinnu nýrra hverfa í bæjarfélaginu með sérstakri áherslu á skóla, leikskóla, tómstunda- og íþróttamannvirki. Taka þarf skipulagsmál Ásbrúar til endurskoðunar, þar sem spurn er eftir lóðum sem kallar á aukna þjónustu á svæðinu. Gera þarf átak í endurnýjun gatna og gangstétta.​​​​​​

Efling íþróttastarfs og íþróttamannvirkja

Forgangsraða þarf verkefnum íþróttamála í samræmi við framtíðarsýn félaganna. Við viljum halda áfram að greiða þeim þjálfarastyrki til að mæta fjölgun iðkenda og leita leiða fyrir ungt afreksfólk í bæjarfélaginu til að afla sér tekna samhliða íþróttaiðkun. Einnig þarf að koma á fót samstarfshóp íþróttaforystunnar og bæjarfélagsins til að móta framtíðarsýn og forgang í uppbyggingu íþróttamannvirkja í bæjarfélaginu. Styrkja þarf forvarnarstarf íþróttafélaga með auknum fjárframlögum, og auka þarf hvatningu til heilsueflingar með áherslu á fjölbreyttari aðstöðu til útivistar sem hentar öllum. Stuðla þarf að bættri nýtingu sundmiðstöðvar, til dæmis með lengri eða breyttum þjónustutíma, og fylgja eftir framtíðaráætlun breyttrar sundmiðstöðvar með áherslu á nýja og stærri rennibraut í sundlaug.

  • Twitter App Icon
  • Instagram App Icon

Frjálst afl  - Brekkustígur 41 - 260 Reykjanesbær. 

                           frjalstafl@frjalstafl.is                                                                                                                                                                                                                    

bottom of page