top of page

Ráðum fagmann í stöðu bæjarstjóra

 

Með nýjum sveitarstjórnarlögum og fjárhagsreglum sveitarfélaga eru fjármál og skuldir þeirra í brennidepli. Við verðum að horfast í augu við þá alvarlegu staðreynd að skuldastaða Reykjanesbæjar er enn vel yfir þeim viðmiðunarmörkum sem yfirvöld hafa sett. Þar er gert ráð fyrir 150% skuldahlutfalli sem hámarki miðað við tekjur. Skuldahlutfall Reykjanesbæjar er langt yfir þeim mörkum.

 

Á þessu kjörtímabili hefur náðst allnokkur árangur í lækkun skulda bæjarfélagsins, en það hefur fyrst og fremst byggst á samningum um lækkun skulda og sölu eigna. Til að ná viðunandi árangri verðum við að sýna meiri aga og aðhald.

 

Nú er nauðsynlegt að gera hvort tveggja að lækka útgjöld og auka tekjur, eigi einhver árangur að nást í áframhaldandi lækkun skulda. Við þurfum fleiri öflug, atvinnuskapandi fyrirtæki sem greiða há laun og fleira velmenntað hálaunafólk sem vill búa í þessu ágæta bæjarfélagi okkar til að tekjur sveitarfélagsins aukist. Við þurfum ekki síður að draga markvisst úr rekstrarútgjöldum og stöðva ýmsar fjárfestingar sem vel geta beðið. Við það ástand sem ríkir í okkar bæjarfélagi verðum við að hafa manndóm í okkur til að greina á milli nauðsynlegra verkefna og æskilegra verkefna.

 

Til þess að ná árangri í lækkun skulda er að mínu mati nauðsynlegt að skipta um skipstjóra í brúnni. Þar er ekki verið að halla á núverandi bæjarstjóra sem persónu enda er hann hinn vænsti maður. Á-listi Frjáls afls mun beita sér fyrir því að ráðinn verði bæjarstjóri sem kemur ekki úr röðum bæjarfulltrúa. Ráðinn verði karl eða kona sem er fagmaður í rekstri og beintengist ekki stjórnmálaöflum í bæjarfélaginu. Þessi aðili getur þá tekið rekstur bæjarins föstum tökum og einbeitt sér að því að koma fjármálunum í lag. Þannig náum við bestum árangri í rekstri sveitarfélagsins okkar. Reykjanesbær á sér bjarta framtíð verði rétt á málum haldið. 

 

Gunnar Þórarinsson 1 sæti Frjálst afl.

 

Frjálst afl  - Hafnargötu 91 - 230 Reykjanesbær. 

                           frjalstafl@frjalstafl.is                                                                                                                                                                                                                    

  • Twitter App Icon
  • Instagram App Icon
  • Twitter App Icon
  • Instagram App Icon

Frjálst afl  - Brekkustígur 41 - 260 Reykjanesbær. 

                           frjalstafl@frjalstafl.is                                                                                                                                                                                                                    

bottom of page