top of page

Sóknin til betra bæjarfélags

Eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar fyrir fjórum árum tók við nýr meirihluti í Reykjanesbæ. Nýs meirihluta biðu ærin verk. Bærinn var tæknilega séð gjaldþrota. Skuldahlutfallið var um 250% en það má hæst vera 150% skv. lögum. Eftirlitsnefnd sveitarfélaga var þegar með bæinn undir sinni smásjá og hafði verið í nokkurn tíma. 

 

Eftirlitsnefnd sveitarfélaga er skipuð af innanríkisráðherra. Þegar skuldir sveitarfélaga fara 15 prósentustigum yfir lögbundin 150% af heildarveltu, ber endurskoðanda viðkomandi sveitarfélags að láta vita og þá ber viðkomandi sveitarstjórn að vinna með eftirlitsnefndinni. Einnig ber þeim að skila inn sérstakri aðlögunaráætlun um hvernig eigi að ná lögbundnu skuldaviðmiði. Eftirlitsnefndin hefur fullt og óskorðað vald. 
 

Árið 2009 varð bæjarfélagið Álftanes gjaldþrota. Skuldirnar voru gríðarlegar og skv. skýrslum bar fyrrverandi meirihluti á því fulla ábyrgð. Álögur á íbúa voru auknar verulega. Þá var þjónustu, önnur en lögbundin þjónusta, skorin verulega niður og gjöld aukin. Þjónusta leikskóla, íþróttastarfsemi hvers konar og tónlistarskólar eru dæmi um þjónustu sem ekki er lögbundin. 

 

En hvað gerði nýr meirihluti í Reykjanesbæ?

Hann hófst strax handa. Farið var í gagngera endurskipulagningu á fjármálum bæjarins. Yfirstjórn bæjarins var endurskipulögð. Markmiðið var að forða Reykjanesbæ frá gjaldþroti. Lögð var á það áhersla að leita allra leiða til að vernda grunnþjónustu og þá sérstaklega grunnskóla bæjarins. Starfsmenn bæjarins muna þennan tíma vel. Einn þeirra sagði mér að hann hefði þurft að fá leyfi fyrir ljósaperu, svo erfitt var ástandið.
 

Fljótlega fékk bærinn greiðsluskjól. Farið var að vinna að aðgerðaáætlun sem fékk nafnið Sóknin. Strax um haustið 2014 var Sóknin kynnt bæjarbúum á fjölmennum fundi í Stapa. Ég viðurkenni að hafa fengið nett áfall á þeim fundi. Hvernig yrði þetta eiginlega, hvernig í ósköpunum væri hægt að ráða fram úr þeim grafalvarlega vanda sem búið var að koma bæjarfélaginu í.

  

Árið 2015 var kauphöllinni raunar tilkynnt að hætta væri á greiðslufalli ef ekki næðust samningar. Samningaviðræður voru erfiðar. Lífeyrissjóðir voru sérstaklega erfiðir viðureignar í þeim samningaviðræðum. Þeir vildu fá til baka sína peninga sem þeir höfðu lánað bænum í góðri trú. Meirihlutinn stóð líka fastur á sínu. Ekki yrði gengið á grunnþjónustuna. Ekki væri hægt að leggja á íbúa brjálæðislegar hækkanir á gjöldum… það yrði að vera hægt að lifa áfram í bæjarfélaginu, ellegar myndi hann tapa íbúum. 

 

Eftirlitsnefnd og innanríkisráðherra heimiluðu hækkun útsvars umfram hámark og var samið um að sú hækkun myndi aðeins gilda í þrjú ár. Þetta tókst með því að koma með raunhæfa áætlun sem bænum tókst að standa við.
 

Árið 2017 náðust svo samningar. Sóknin var samþykkt. 

 

Á þessum fjórum árum hefur náðst mikill og góður árangur. Bærinn hefur farið frá því að vera rétt um 100% yfir lögbundnu skuldaviðmiði í að viðmiðið í dag er 186%, sem er lækkun um 64 prósentustig. Álagning er nú komin niður í lögbundið hámark. Eftirlitsnefnd sveitarfélaga leyfir ekki frekari lækkanir meðan skuldaviðmið hafa ekki náðst. Nýlegar skýrslur sýna að Reykjanesbær er enn skuldsettasta sveitafélagið. Sömu skýrslur sýna að við erum líka best rekna sveitarfélagið. Við sjáum til hafnar. Með áframhaldandi ábyrgri stjórn eru bjartir tímar fram undan í Reykjanesbæ. 

Guðrún Pálsdóttir, 9. sætið á lista Frjáls afls

  • Twitter App Icon
  • Instagram App Icon

Frjálst afl  - Brekkustígur 41 - 260 Reykjanesbær. 

                           frjalstafl@frjalstafl.is                                                                                                                                                                                                                    

bottom of page